<$BlogRSDURL$>

desember 30, 2004

Spil og spjall 

Það er búið að vera heldur rysjótt veður þessa jóladaga. Aldrei nein ófærð en oft hvasst, ýmist frost eða þíða þannig að það er fljúgandi hálka um allt.
Við fórum í fyrrakvöld upp í Fljótsdal og spiluðum félagsvist. Það þarf ekki að orðlengja það neitt, ég vann og fór heim með forláta ávaxtaskálar. Eftir að spilamennskunni lauk fórum við í Víðivelli til Mjallhvítar og hennar manns (nei, hann er ekkert sérstaklega lítill). Þar var setið og spjallað langt fram á nótt. Í gærmorgun fór svo Björninn af stað til Eyja, morgunfluginu seinkaði og þar með þurfti hann að bíða í sólarhring eftir næstu ferð Herjólfs. Hann er líkast til að verða kominn þangað núna.
Sissa í næsta húsi hringdi í mig í gærkvöldi og bauð okkur að koma og taka þátt í að eyða upp rauðvíns- og konfektbirgðum heimilisins. Auðvitað þáðum við gott boð og endaði þetta með því að við sátum við Pictionary-spil dálítið fram yfir miðnættið. Rauðvínsbirgðir beggja heimila létu á sjá, enda 7 fullorðnir einstaklingar að verki. Ég held samt að dótturdóttur Sissu (12 ára)hafi bara skemmt sér vel.

Nú erum við að gera okkur klár í að fara á Norðfjörð og eyða áramótunum þar.

Já og afmælisbörn dagsins eru Laufey systir mín og Laufey bróðurdóttir mín. Kíki í kaffi hjá annarri eða báðum á eftir, en til öryggis:

Til hamingju stelpur !

desember 28, 2004

Jólagjafir og fleira 

Ég hef verið löt við að skrifa hér inn undanfarna daga enda nóg annað að dunda. Ég fékk margar góðar bækur í jólagjöf og er allt of skammt komin í lestri þeirra. Þar að auki fengu aðrir í fjölskyldunni álitlegar bækur sem ég þarf að næla í á eftir eigendunum. Kleifarvatn var gripin fyrst, en þó hún sé vel skrifuð og skemmtileg aflestrar er ekki margt sem kemur manni á óvart í þessari bók. Ég er að lesa Agötu Christie núna - Lávarður deyr - las hana á ensku einhvern tíma fyrir lifandis löngu og er búin að gleyma plottinu. Svo á ég eftir Sakleysingjana, Baróninn, Engla og djöfla, Bítlaávarpið, Halldór Kiljan Laxnes, Útkall, Baggalútsbókina og örugglega eitthvað fleira. Já, við erum lestrarhestar hér á heimilinu og kunnum vel að meta góðar bækur.
Jólapúsl fjölskyldunnar tók fljótt af: Byrjuðum um miðjan dag í gær og kláruðum í dag. Liggur við að ég grafi upp aðra bara svona til að hafa liggjandi á borðinu.
Björninn fer á miðvikudag til Eyja, ætlar að dvelja þar um áramótin. Fyrsta skipti sem hann er ekki heima um áramót. Við höfum enn ekki ákveðið hvenær við förum á Norðfjörð, það er venja hjá okkur að vera ekkert að skipuleggja slíkt ferðalag með löngum fyrirvara, því þá vill bresta á með vonskuveður og ófærð. Þó leiðin sé ekki ýkja löng getur færð og veður verið snöggt að breytast á þessum árstíma.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?