<$BlogRSDURL$>

mars 11, 2005

Í vinnunni 

Við sitjum hér fjögur og vinnum, hvert við sína tölvu, hver og einn með sitt verkefni. Ég lauk við fyrstu drög að stórum gagnagrunni í gær og er núna að yfirfara hann miðað við forsendurnar.
Það er allt orðið hvítt fyrir utan gluggann og ekkert heyrist nema bílarnir sem keyra framhjá, smellir í músum og klikk á lyklaborðum. Veikur ómur úr heyrnartólunum hjá Tjörva, af og til tekur hann undir og syngur eina línu úr laginu fullum hálsi, stundum örlítið falskt - "Under my skin !!!" . Við erum orðin vön þessu, nema Hjalti, hann er svo nýlega byrjaður að hann fer að hlæja. Það gerði ég líka fyrst í stað en allir brandarar hætta að vera fyndnir ef þeir eru endurteknir nógu oft.

Gunnar vinur minn segir hæ á MSN, sendir mér fyndna mynd af kalli með risakött, teiknimyndafígúru og loks mynd af sjálfum sér að mjólka kú, eða a.m.k. reyna.
Ég sendi honum eina til baka og segi svo bless.

Framundan er helgi, þéttsetin, held ég verði að klóna mig til að komast yfir allt sem ég þarf að gera.

Fimmtugsafmæli, Íbúaþing, Körfuboltaleikur (Höttur-ÍA) - allt á sama tíma eða næstum því.

Synirnir eru báðir heima um helgina, nema hvað björninn þarf að vinna eina næturvakt.

Og næsta vika er að verða dálítið þéttsetin verkefnum líka - meir um það síðar - held áfram að vinna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?