<$BlogRSDURL$>

maí 02, 2005

Rauðir dagar ! 

Það er frekar fúlt þegar 1. maí og aðra slíka "rauða daga" ber upp á helgi. Enn fúlla finnst mér þegar maður verður veikur seinnipart á föstudegi og endar í að liggja í bælinu alla helgina en vera svo orðin slarkfær á mánudagsmorgni. Þetta var hvort tveggja raunin hjá mér um helgina. Finn það svo greinilega núna að sennilega hefði ég bara átt að vera heima í dag. Heilsan engan veginn nógu góð.

Talandi um rauða daga:
Þegar ég var að alast upp í Norðfjarðarsveit, rétt eftir miðja síðustu öld, var það til siðs að borða heitan mat í hádeginu og ekki bara það, heldur var alltaf tvíréttað. Fyrst var fiskur eða kjöt og síðan eftirréttur. Súpa, ef kjöt var í aðalrétt, en gjarnan matarmeiri grautur á eftir fiskinum.
Einhvern tíma á 1. maí, var soðin ýsa og rabbabaragrautur á matseðlinum. Rétt fyrir matinn varð uppi fótur og fit því einhver af okkur krökkunum sá undarlegan fugl úti í garði. Það var brandugla, sem í þá daga var sjaldlséður fugl hérlendis. Þegar mamma fór svo að klára matseldina, varð henni það á að setja matarlitinn í vitlausan pott. Við fengum því bleika ýsu í matinn þann daginn.

En þetta var nú svona útúrdúr. Huggun harmi gegn að fá uppstigningadag og annan í hvítasunnu fljótlega.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?