<$BlogRSDURL$>

janúar 21, 2005

Bóndadagur 

Bóndi minn liggur enn í flensu. Verð að finna eitthvað gott í kvöldmatinn handa honum og Birninum, sem er að fara að vinna í nótt.

Í morgun, þegar ég var á leið í vinnuna, heyrði ég Margréti Blöndal vera að útlista hvaða verðlaun sá fengi sem valinn verður kynþokkafyllstur íslenskra karlmanna. Eitt af því sem hann hlýtur er borvél. Margrét gat ekki sagt hvaða tegund, en sagði frá því að hún væri nýlega búin að komast að því að það væru til mismunandi gerðir af borum. Hún vissi sem sagt að ef þú notar bor, sem er ætlaður til að bora í tré, til að bora í flísar, yrði borinn dálítið svona tættur að framan. Það var á henni að skilja að hún hefði komist að þessu af eigin raun.
Það kom líka fram að karlkyns útvarpsmenn leggja sig sérstaklega fram um að vera dimmraddaðir og mjúkmæltir dagana fyrir bóndadag, til þess að eiga betri von um atkvæði - og eignast kannski borvél.


janúar 19, 2005

Flensan herjar. 

Björninn minn kom veikur heim á mánudaginn og er búinn að liggja síðan. Bóndinn var orðinn veikur í morgun og það væri ákaflega undarlegt ef ég slyppi.
Mikið að gera í vinnunni og því varla litið upp allan daginn. Fer reyndar í ræktina í hádeginu - vont að sitja við tölvuna allan daginn.

Rakst á fyrirsögn á forsíðu Bændablaðsins í fyrradag:

"Starfsmenn og makar Landbúnaðarháskólans ....."

Síðan hvenær eiga skólar maka og ekki bara einn heldur marga ?
Er fjölkvæni leyfilegt hjá skólum ?

En hvaða rugl er þetta í mér, best að halda sig að verki.


janúar 17, 2005

Komin heim ! 

Alltaf er jafn gott að koma aftur heim, þó að það sé búið að vera gaman undanfarna daga. Ætla ekki að þreyta ykkur með ferðasögunni en það er alveg undarlegt að ég má ekki bregða mér af bæ án þess að allt fari í vitleysu. Það búa 3 karlmenn heima hjá mér (bóndinn og synirnir 2): 1 lagðist í flensu, 1 reif vöðva í fætinum á sér og 1 fékk utanlandsferð í vinning á árshátíð og er núna daginn út og daginn inn að spá í áfangastaði Flugleiða í Evrópu.
Er komin í vinnuna, þreytt og syfjuð eftir lítinn svefn og langar göngur um stræti og torg, ráðstefnusali og flugstöðvar, en í sjöunda himni yfir skemmtilegri ferð.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?