<$BlogRSDURL$>

febrúar 04, 2005

Aftur kominn snjór ! 

Þorbjörn heimtar "update" og af því hann er svo ágætur áfangastjóri, læt ég það eftir honum.
Það snjóaði í nótt og éljagangur fyrirsjáanlegur fram eftir degi. Gat nú verið, bóndinn að þvælast akandi norður í landi og ætlar að keyra austur í kvöld. Þar að auki eru Jón og Kristín að koma austur með síðdegisvélinni (eða kaffivélinni eins og við köllum hana stundum). Það gengur vonandi allt vel. Skriðdalsblótið verður annað kvöld og þar verður örugglega skemmtilegt.
Ég er að fara í ræktina, í fjórða skiptið í þessari viku. Bara nokkuð gott hjá mér, er það ekki ?

febrúar 02, 2005

Veðurblíða 

Snjórinn er að verða horfinn og hálkan líka. Mér er svo sem ekkert illa við snjó, ef hann er bara kyrr og ekkert að fjúka fram og til baka, en hálka og svellbunkar út um allt er ekki mitt uppáhald. Ég hef ekki reynt að fara í skógargöngu lengi, það eru alls staðar svell og frekar erfitt að ganga um, nema á broddum. Þar sem mér er það bráðnauðsynlegt að ganga og hreyfa mig, fer ég í ræktina í staðinn. Útsýnið úr nýja þreksalnum er líka alveg frábært, Egilsstaðir,Fljótsdalshérað og Snæfellið.

Á laugardaginn erum við svo að fara á annað þorrablót, núna í Skriðdalinn. Þar hef ég ekki komið á blót í þó nokkuð mörg ár og hlakka bara mikið til.


janúar 31, 2005

Þorrablótið var frábært ! 

Ekki spurning, þetta var besta blótið til þessa. Það er ekki ofsögum sagt af þeim duldu leik-, dans-, og sönghæfileikum sem fyrirfinnast hjá okkur sveitamönnunum. Ekki spillir svo að efnið er allt frumsamið, nema kannski eitt og eitt lag.

Skógarvörðurinn lét sig ekki muna um að bregða sér í líki beggja tvíburanna, Baldurs og Braga, í einu. Hann hefur reyndar haft þá í vinnu hjá sér töluvert lengi og því verið hæg heimatökin að ná sérkennilegum talsmáta þeirra.

Það eina sem ég var ekki ánægð með var söngstjórinn. Tóntegundir þær sem hann valdi, voru þannig að aðeins konur með sópran-raddir gátu sungið með honum. Við hinar vorum orðnar ansi þreyttar á þessu. Næst verður sko fenginn annar söngstjóri.
Ég var nefnilega skipuð formaður næstu nefndar og þó ég fái engu öðru ráðið, ætla ég að ráða þessu.

Við sem búum í skóginum, hittumst heima hjá mér um sex-leytið og fengum okkur örlítið í aðra litlutána áður en Svenni kom á rútu og sótti okkur. Borðhaldið hófst um kl. 8 og lauk um kl. 11. Síðan var dansað til kl. 4:30.

Ég var svolítið þreytt í gær, verð að viðurkenna það. En ég var svo sem ekki ein um það.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?