<$BlogRSDURL$>

mars 17, 2005

Fyrir tuttugu árum.. 

Fyrir tuttugu árum eignaðist ég dreng, sem var rúmar 20 merkur og 57 sentimetrar. Hann fæddist ekki fyrr en um hálfellefu-leytið um kvöldið, og lét ekkert bíða eftir sér. Ég man að ég náði að horfa á Stundina okkar með eldri syni mínum áður en ég fór á fæðingardeildina. Björninn minn er sem sagt tvítugur í dag. Hann var farinn að brosa framan í heiminn áður en ég fór heim af fæðingardeildinni og gerir það í svo miklu magni enn að sumir af kunningjum hans kalla hann Glotta. Eyjastúlkan er á leiðinni austur og ætlar að vera hjá honum yfir páskana.
Bóndinn er vestur á fjörðum og kemur ekki heim fyrr en annað kvöld og frumburðurinn að vinna á Reyðarfirði, svo hátíðakvöldverði í tilefni af afmælinu verður frestað um einhverja daga.
Og, við unnum í spurningakeppninni - 6:3 - og vorum samt frekar óánægð með okkur því við hefðum getað verið með 11 stig. Hreinasti klaufaskapur það. Næsta keppni er ekki fyrr en eftir páska og þá verðum við að vera búin að undirbúa okkur vel.

mars 14, 2005

Rauðvínsbað í afmæli 

Ég fór í fimmtugsafmæli á laugardaginn, hið ágætasta teiti hjá hótelstýrunni á Hótel Héraði. Margt um manninn og mikið fjör. Ég lenti samt í því að fá yfir mig gusu af rauðvíni, þegar kona nokkur sem stóð fyrir framan mig, saup á rauðvíni og hnerraði svo, þannig að hvíta skyrtan mín varð öll rauðflekkótt. Fleiri urðu fyrir gusunni, en flestir þeirra voru dökkklæddir. Björnin minn var væntanlegur í vinnu, hann er næturvörður á hótelinu um helgar, svo ég hringdi í hann og hann kom með föt til skiptanna handa mér. Hvort rauðvínið næst nokkurn tíma úr skyrtunni, veit ég ekki. Kann einhver góð ráð ?

Annars er bara kominn vetur - snjór og skafrenningur um helgina - og stefnir í svo verði fram eftir vikunni. Vona að félagar mínir, sem ætla að vera með mér í liði í spurningakeppni fyrirtækja í kvöld, komist til Héraðs. Annar býr á Norðfirði og hinn á Eskifirði. Annars verð ég ein í liðinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?