<$BlogRSDURL$>

maí 13, 2005

Starfslok hjá bóndanum 

Bóndi minn var að vinna sinn síðasta vinnudag hjá Skógrækt ríkisins í gær. Ég er ekki frá því að honum hafi þótt þetta jafn skrítið og mörgum öðrum. Hann er nú líka búinn að vinna hjá þessari stofnun nánast alla sína ævi. Að frátöldum 5 árum á sjó, nokkrum haustvertíðum í sláturhúsi og svo þeim tíma sem hann var í skóla, hefur hann verið þarna frá því hann var 14 ára gamall.
Hann ákvað að taka sér frí í dag og í kvöld erum við boðin í veislu hjá skógarverðinum á Hallormsstað.

Síðan tekur við nýja starfið sem framkvæmdastjóri hjá Gróðrarstöðinni Barra hf. á Egilsstöðum.

Við getum þá kannski verið samferða í vinnuna af og til, því frá mínum vinnustað er bara fimm mínútna gangur niður í Barra.

Björninn minn er í næstsíðasta prófinu núna. Þarf að endurtaka eitt stærðfræðipróf eftir hvítasunnu og þá er þetta komið.

maí 12, 2005

Rotary 

Ég fékk það hlutverk með afar skömmum fyrirvara að halda fyrirlestur á Rotary-fundi í Neskaupstað. Ég var beðin um þetta eftir hádegi í gær og var mætt með fyrirlesturinn klukkan hálfsjö í gærkvöldi - á Norðfirði.
Þetta gekk allt saman ljómandi vel, hefði samt gjarna viljað hafa betri tíma til undirbúnings.
Nýtti ferðina líka í að heimsækja móður mína á sjúkrahúsinu í Neskaupstað og kíkja við hjá pabba mínum, sem er einn heima þessa dagana.
Gærdagurinn varð sem sé ansi langur. Komst þó heim nógu snemma til að sjá Svanhildi Hólm Valsdóttur í þættinum hjá Oprah Winfrey. Mér fannst hún gera sitt besta, þrátt fyrir ákveðnar tilraunir O til að stýra því hvað hún segði.

Er að fara til tannlæknis í hádeginu og reikna ekki með að vinna meira í dag. Veit hvernig deyfing fer með mig - þýðir ekkert annað en fara beint heim og undir sæng.

Ljósi punkur þessa dags er þó bókin sem mér áskotnaðist í dag !

maí 11, 2005

Margt smátt ! 

Það hefur ýmislegt gengið á undanfarið.

Björninn í prófum, mamma á sjúkrahúsi, góðir gestir um helgina, fyrsta grill sumarsins á laugardagskvöldið, heilsan ekki alveg nógu góð og hreyfingarleysið að verða alvarlegt.

Enginn tími fyrir blogg.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?