<$BlogRSDURL$>

maí 28, 2005

Aðeins hlýrra 

Þá er aðeins farið að hlýna. Ótrúlegt hvað munar mikið um 3-4 gráður í hita.
Við vinnufélagarnir í Tölvusmiðjunni hittumst eftir vinnu í gær uppi í Eyjólfsstaðaskógi, grilluðum, fórum í ratleik og skemmtum okkur bara vel. Það voru töluvert mörg börn í hópnum sem kunnu vel að meta það að fara og finna eldivið, hlaða bálköst í eldstæðinu og sjá svo um að tína í hann kubba til að halda eldinum við. Allir voru farnir af stað heim um níu-leytið.

Bóndinn var að vinna í dag og ég fór að vinna úti í garði, þar sem hitamælirinn sýndi næstum 9°. Ég var búin að gera það sem ég ætlaði mér og var að ganga frá verkfærum, þegar ég rak hausinn upp undir bita. Var sem betur fer með húfu, en fann samt að eitthvað lét undan og blóðið rann fram á ennið á mér. Er með tveggja sentimetra skurð á hvirflinum, það blæðir svolítið en ég ætla ekki að fara til læknis. Það er svo kauðalegt að þurfa láta sauma saman á sér hausinn eins og einhver krakkaklaufi.

maí 26, 2005

Kuldi og kiljur 

Þessu virðist ekki ætla að linna ! Það er ennþá svo kalt að bara tilhugsunin um að fara út í garð, verður til þess að maður skríður undir sæng.

Ég pantaði mér nokkrar kiljur af Amazon um daginn og komst að því að það er allur gangur á því hvernig svona sendingar eru meðhöndlaðar. Ég pantaði 9 bækur alls. Tvær þeirra komu í pósti, athugasemdalaust og án kostnaðar. Tollurinn sendi mér bréf út af þremur þeirra og báðu um reikning fyrir innihaldinu. Tvær komu svo beint til mín, en ég þurfti að borga einhverja hundraðkalla í flutningskostnað. Enn vantar mig tvær bækur - veit ekki hvar þær eru niðurkomnar, bíð bara spennt.

Heyrði aðeins Birninum á Krít í gær. Þau eru í góðu yfirlæti og hin hressustu.

maí 24, 2005

Enn er kalt ... 

Það er ekkert hlýrra í dag en í gær, en það snjóar ekki þessa stundina. Spámennirnir eru að gera ráð fyrir að það hlýni um örfáar gráður á morgun og að næturfrostum fari að linna. Tími til kominn.

Ég fór ekki út í garð í gær - of kalt.

Það voru dálítil viðbrigði eftir allt atið og lætin sem búin eru að vera heima undanfarna daga. Í stað þess að vera 7-8 manns að borða á ýmsum tímum sólarhrings, sjaldnast allir í einu, vorum við bara tvö í gærkvöldi, bóndinn og ég. Enginn sími hringdi, enginn að koma eða fara og bara rólegheit almennt.

Þóra Elísabet á afmæli í dag - til hamingju með daginn !

maí 23, 2005

Aftur komin í vinnuna 

Þá er helgin liðin og flestir komnir til sinna starfa aftur.

Frumburðurinn var farinn á Reyðarfjörð á nýja bílnum sínum, en hann brá sér vestur í Ólafsvík umdaginn og keypti sér eðalvagn af gerðinni Nissan Maxima. Stórir menn þurfa stóra bíla !

Björninn og Eyjastúlkan eru þessa stundina á leið til Krítar í tveggja vikna frí. Þau fóru akandi suður í gær, svolítið þreytt eftir langan laugardag, með útskrift og tilheyrandi veisluhöldum.

Veðrið er samt við sig, kuldi og éljagangur upp á hvern dag. Ekki eins hvasst í dag eins og í gær, en andstyggilega kalt.

Ég er búin að setja mörkin við 5° hita. Ef það er kaldara, fer ég ekki út í garð að vinna !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?