<$BlogRSDURL$>

júní 25, 2005

Skógardagurinn ! 

Skógardagurinn er að verða liðinn !
Nautið sem var grillað í nótt bragðaðist vel, veðrið var frábært, allt fullt af fólki, nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi var krýndur og allt eins og það átti að vera.Nautið í gærkvöldi !

Nautið í dag !

Úr Neðstareit í dag.Í kvöld verður svo farið í Víðivallaskóg og borðað lambakjöt og drukkinn bjór, sungið og skrallað að skógarmannsið. það er hvergi betra að fá sér öl en í góðum skógarmannahópi úti í skógi.

Enda kvað skáldið Þorsteinn Valdimarsson:

" Er kyn þótt skógarmenn og konur drekki,
ég held nú ekki, ég held nú ekki.
Er kyn þótt skógarmenn og konur drekki,
ég held nú ekki, það er sjálfsagt mál. "

(framhald síðar)

júní 24, 2005

Í sumarfríi 

Ég er búin að vera í fríi í tæpar tvær vikur og í dag náði ég ákveðnum áfanga. Ég gat ómögulega munað hvort það var miðvikudagur eða fimmtudagur. Þetta er ákveðið ástand sem ég upplifi aldrei nema þegar ég er í fríi.
Annað sem gleður mig ákaflega er rigningin á suðurlandi undanfarna daga. "Niðursetningarnir" í Grímsnesinu deyja þá síður úr þorsta.
Á laugardaginn verður svo Skógardagur í Hallormsstaðaskógi - Skógarhlaup, keppni í skógarhöggi, skemmtiatriði og ýmislegt fleira. Síðast en ekki síst ætla einhverjir matreiðslumenn að heilgrilla hálft naut (eða hálfgrilla heilt naut ??). Ég er viss um að hugmyndinni hafa þeir stolið af blogginu mínu og svo bloggi Nönnu, en við vorum einmitt að kasta á milli okkar svona hugmyndum í fyrrasumar. Nanna, nú væri sniðugt fyrir þig að skreppa austur, svona til að sjá með eigin augum hvernig til tekst. Mér skilst að reiknað sé með tæpum sólarhring í þetta dæmi. kveikt verði upp síðdegis á föstudag og matur framreiddur síðdegis á laugardag. Kannski ég bjóðist til að taka næturvaktina. Það er svo frábært að vaka á nóttunni á þessum árstíma.

júní 20, 2005

Sumarfrí og bloggfrí. 

Það eru liðnir 8 dagar síðan ég skrifaði hér inn síðast. Ég er búin að vera í fríi síðustu viku og þá tek ég mér gjarnan tölvu- og bloggfrí líka. Þegar vinnan manns felst í að vinna á tölvu mest allan daginn, er lítil skynsemi í því fólgin að sitja við tölvuna í frítímanum líka.

Það sem helst hefur á mína daga drifið síðustu viku er að ég brá mér til Reykjavíkur á miðvikudaginn og kom heim aftur í fyrradag. Ég var sem sagt í Reykjavík á 17. júní í fyrsta skipti á ævinni. Veðrið þar var alveg þokkalegt, en svo sem ekkert yfirþyrmandi gott á austfirskan mælikvarða. Ég er líka með ákveðna kenningu um fólkið sem leið út af á Austurvelli að morgni þjóðhátíðardagsins. Það var heitt, þau voru dökkklædd í sólskini og logni - en gleymið því ekki að forsætisráðherrann var að halda ræðu. Mér hættir til að dotta undir ræðum hans, jafnvel við óþægilegri aðstæður en þarna voru.

Á laugardaginn kom ég heim, akandi, ásamt vinkonu minni og 10 ára syni hennar.
Sú ferð einkenndist af Esso-vegabréfa-stoppum, "hver er maðurinn" - leiknum og því að með í för var einnig hamsturinn Mikki (stundum kallaður Michael Jackson). Þrátt fyrir ýmsar tafir vorum við ekki nema tæpa níu tíma í Hallormsstað.

Í gær fórum við bóndinn svo í fermingarveislu á Borgarfirði. Ég kom í Bakkagerðiskirju og sá altaristöfluna frægu, eftir Kjarval, þar sem Jesú stendur á Álfaborginni með Dyrfjöllin í baksýn og blessar Borgfirðinga. Skilst mér að þekkja megi í mannfjöldanum nokkra innfædda, sem voru samtíðamenn Kjarvals á Borgarfirði.

Stúlkan sem var að fermast heitir Hrefna Rós og er dótturdóttir nágranna okkar. Hún var mikið hjá afa og ömmu á fyrstu árunum sínum og þá mjög tíður gestur hjá okkur. Gæti ég best trúað að hennar fyrstu ferðalög á eigin spýtur hafi verið þegar hún kom og bankaði á þvottahúsdyrnar hjá okkur og spurði: "E Brössi eima" ?
Hún kallaði nefnilega Björninn alltaf "Brössa", og var ákaflega hænd að honum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?