<$BlogRSDURL$>

júlí 16, 2005

Fálkar og jarðarber 

Ég gleymdi að segja frá því að ég sá fálkapar á einni af mínum gönguferðum um daginn. Þau svifu yfir höfði mér og skræktu ámátlega og örugglega þýddi þetta "Hypjaðu þig af okkar svæði, mannskepna" ! Á þessum slóðum hefur stundum verið fálkahreiður og er það trúlega líka núna.
Í annarri gönguferð fundum við brekku, þakta villtum jarðarberjaplöntum í fullum blóma. Ég er ákveðin í að fara aftur þangað í haust.

Í dag höfum við verið að fúaverja þakskeggið og vindskeiðina á húsinu okkar og eins og við var að búast, er farið að draga upp ský og verður eflaust farið að rigna áður en langt um líður. Best ég fari að kveikja upp í grillinu, svo kolin nái að hitna vel. Ætla að grilla lax og kjúklingabita í kvöld. Er að gera tilraun með að marinera laxinn í eigin uppskrift. Spurning hvernig það tekst.

júlí 14, 2005

Göngutúr í góða veðrinu. 

Var svo þreytt og pirruð þegar ég kom heim úr vinnunni í gær að ég ákvað að fara í stutta skógargöngu, til að ná úr mér pirringnum. Veðrið var gott og einhvern veginn áður en ég vissi af var ég komin lengst upp í fjall. Og fyrst ég var komin lengst upp í fjall var tilvalið að labba aðeins út með fjallinu og athuga hvort ég fyndi ekki eins og einn fallegan stein.
Endirinn varð sá að ég fann allmarga fallega steina og göngutúrinn varð bæði langur og erfiður. Held ég hafi verið nærri 3 tíma á göngu og síðasta klukkutímann með 12-15 kíló af grjóti á bakinu í lélegum bakpoka.
Lífið ER dásamlegt ! Fyrir tæpu ári hefði ég alls ekki getað gengið þessa leið, hvað þá borið allt þetta grjót heim hjálparlaust.

júlí 11, 2005

Sól rís .... Myndin er tekin 11. júlí 2005, kl. 02:46 í Bjargselsbotnum ofan við Hallormsstað.

Síðasta vika 

Mánudagur til föstudagur - vinna. Er farin að hanna og forrita viðmót á stóra verkefnið okkar og eins og alltaf gerist, koma upp fleiri spurningar en svarað er. Tókst samt að klára forsíðuna að mestu leyti á föstudag. Næstu síður verða vonandi auðveldari viðfangs.
Annað sem ég gerði í vikunni:
 • Pantaði utanlandsferð fyrir okkur hjónin

 • Sló lóðina mína

 • Aðstoðaði bóndann við að skrifa út reikninga

 • Fór á Sumarhátíð UÍA

 • Tók þátt í útihátíð Hallormsstaðabúa

 • Fór í næturfjallgöngu og sá sólina koma upp

 • Lá í sólbaði

 • Las Kalahari vélritunarskóla fyrir karlmenn

 • Byrjaði að lesa Móðir í hjáverkum


 • Nú er aftur kominn mánudagur og útlit fyrir annir í vinnunni og allt of gott veður til að vera innan dyra.

  This page is powered by Blogger. Isn't yours?