<$BlogRSDURL$>

júlí 29, 2005

Verslunarmannahelgin framundan ! 

Það stendur til að skreppa á svokallað Norðfirðingakvöld á Neistaflugi í kvöld. Þar stefnir í að við systkinin ásamt mökum og alla vega einhverjir af afkomendunum mæti. Einhverjir úr fjölskyldunni eru að skemmta öðrum en allir hinir í því að skemmta sjálfum sér. Við verðum svo að keyra heim aftur í nótt eða snemma í fyrramálið, því bóndinn er á vakt í gróðurhúsunum um helgina og plönturnar þarf að passa, hvað sem öllu djammi líður.

Farmiðar og önnur gögn vegna Þýskalandsferðarinnar komu með póstinum í gær og þá græddi ég heilan dag. Þá uppgötvaði ég að þótt brottför sé formlega 12. ágúst er mæting í Keflavík að kvöldi 11. og því fækkaði dögunum um einn.

Brottför frá Keflavík eftir 13 daga.

júlí 27, 2005

Mogginn leiðréttir sig ! 

Fréttin á mbl.is, sem ég linkaði á í gær hefur verið leiðrétt ! Nú eru það Héraðsbúar sem eru að baða sig í Eyvindaránni. Mikill er máttur bloggsins !

Veðrið er farið að skána en samt finnst mér frekar kalt í lofti. En sólin er farin að skína og allt horfir til betri vegar.
Frumburðurinn er kominn til Þrándheims í Noregi og ætlar að dvelja á þeim slóðum næstu daga. Hann hefur verið samviskusamur með að hringja í mig og láta vita af ferðum sínum.

16 dagar í Þýskalandsferð !

júlí 26, 2005

Merkileg fyrirsögn í Mogganum 

Mér fannst þessi fyrirsögn mjög sérstök. Fljótsdælingar eiga nú nóg af lækjum og ám til að kæla sig í. Það þurfa þeir þó ekki að sækja í Egilsstaði.

Hins vegar lýsir þetta vanþekkingu þess sem semur fyrirsögnina.

17 dagar í Þýskalandsför.

júlí 25, 2005

Eftir helgina.... 

Helgin varð alveg ágæt, veðrið bara gott á laugardaginn og frábært veður í gær. Það var reyndar þoka niður í miðjar hlíðar á Norðfirði, en það kom ekki í veg fyrir garðpartý hjá mági mínum og systur. Björninn fór með okkur og þar sem dreypt var dálítið á rauðvíni bjór, viskí og koníaki, gistum við hjá ættingjum, sem þarna eru í öðru hvoru húsi. Um morguninn var komið dýrindis veður, ég dreif mig í sund rétt fyrir tíu og svo var farið í hádegismat hjá pabba og mömmu. Björninn þurfti að komast í einhvern fótbolta á Eiðum svo við drifum okkur til Héraðs upp úr hádeginu. Á Hallormsstað var 22 stiga hiti, nánast logn og heiður himinn, þegar þangað kom.
Í kvöld erum við svo að fara í siglingu með Lagarfljótsorminum. Í þeirri veislu er verið að halda upp á nýfundna heitavatnsæð með stjórn Hitaveitunnar, starfsmönnum og bormönnuunum, sem búnir eru að vera við þessa iðju síðan í júní.

18 dagar í Þýskalandsferð !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?