<$BlogRSDURL$>

október 07, 2005

Á leið í borgina 

Ég er að fara til Reykjavíkur á eftir. Erindið er að hitta mann og annan og hafa gaman af. Í kvöld verður farið í Leikhúskjallarann að horfa á nokkra einþáttunga, þ.á.m. einn eftir Jón Guðmundsson. Á morgun ætlum við svo að hitta samferðafólk okkar úr Þýskalandsferðinni í sumar. Það verður örugglega skemmtilegt.
Bóndinn er farinn suður og situr núna væntanlega á fundi með félagsmálaráðherra um málefni sveitarfélagsins okkar. Kannski finnum við okkur eitthvað fleira skemmtilegt að gera, en annars bíður það bara næstu ferðar, nú eða þarnæstu....

Við missum hins vegar af innflutnigsteiti hjá ömmunni nýbökuðu, afmæli og örugglega einhverju fleiru. Verst að það skuli ekki vera hægt að vera á fleiri en einum stað í einu.

október 06, 2005

Af löggæslukostnaði 

Ef íþróttafélag gengst fyrir landsmóti er því sendur reikningur fyrir löggæslukostnaði.
Ef erlent stórfyrirtæki kærir erlenda einstaklinga fyrir skemmdarverk eða átroðning, nú eða bara er hrætt um að verða fyrir slíku - hver fær þá reikninginn ??

Gettu !

október 05, 2005

Kalli var það, heillin ! 

Í kvöld var barið að dyrum hjá mér og þar var kominn nágranni minn að leita að Kalla kanínu. Það er sem sé komið í ljós að ólíklegasta skýringin reyndist sú rétta, alveg eins og gerist í góðum krimma.
Kalli kanína virðist nefnilega vera farinn að koma og fara úr sinni "rammgerðu" girðingu eins og honum sjálfum þóknast !
Það var Kalli sem ég sá í gærmorgun að hnusa af stjúpunum mínum, þessum fáu sem enn lifa. Ég var ekki drukkin og engin önnur kanína komin á svæðið ! Og allar vangaveltur um kanínusteik eru hér með úr sögunni, því Kalli er orðinn öldungur á kanínumælikvarða, örugglega ólseigur og svo borðar maður ekki gæludýr nágranna sinna. Það er skepnuskapur !

október 04, 2005

Mýs, fræ og menn ! 

Vissuð þið að venjulegar íslenskar hagamýs sem finna lindifuruköngul, hirða úr honum þroskuðu fræin en skilja hin eftir ?

Menn hafa ekki fundið neina ódýra aðferð við að leika þetta eftir.

Þá kemur spurningunum:
1. Er hægt að láta mýsnar vinna verkið?
2. Þarf að borga þeim fyrir eða nægir að skaffa þeim fæði og hlýtt húsnæði ?
3. Er frelsisskerðing músanna ámælisverð ?

Ja, maður spyr sig ?

október 03, 2005

Kalli eða ekki Kalli - þarna er efinn 

Í morgun þegar ég var að fara af stað í vinnuna, sá ég hvar kanína skaust frá blómapotti við bílastæðið mitt. Ég hélt auðvitað að þetta væri hann Kalli, sem býr hérna við hliðina og er búinn í allt sumar að hafa augastað á stjúpunum mínum í áðurnefndum potti. Ég var að flýta mér, en ákvað að hringja í nágranna mína og láta þau vita að Kalli hefði sloppið út úr rammgerðri girðingu sinni. Þóttist þar með hafa leyst málið, því Árni Kristján tók vel í að horfa eftir Kalla.
Áðan kom svo móðir Árna, hún Sissa, og sagði mér að Kalli hefði ekkert sloppið út. Annað hvort hefði ég séð einhverja allt aðra kanínu eða þá að ég hefði verið búin að drekka mig fulla fyrir morgunmat og séð ofsjónir - það var nú kallaður Tremmi í gamla daga ef menn drukku þar til þeir sáu ofsjónir - og þau velt því fyrir sér hvort það væri ekki í þágu almannaheilla að hefta för mína um þjóðveginn. Mér skilst að þau hafi skemmt sér yfir þessu fram eftir degi.

En ég sá VÍST kanínu - það er skárra að halda því fram, annars hef ég misst af svakalegu fylleríi.

október 02, 2005

Ammmæli 

Í dag fórum við bóndinn á Norðfjörð, rétt svona til að sjá framan í foreldra mína.  Orðið dálítið langt síðan síðast.  Þau voru þá rétt að fara af stað í afmæli systurdóttur minnar og nöfnu, sem reyndar varð 9 ára á fimmtudaginn var.  Auðvitað gerðumst við boðflennur og var ótrúlega vel tekið miðað við það.  Hitti ég þar tvo bræður mína og báðar systur, tengdafólk og ættmenni önnur.  Ótrúlegt hvað þessi fjölskylda mín finnur sér mörg tækifæri til að hittast og borða !

Björninn og Eyjastúlkan eru enn í Skotlandi.  Frumburðurinn kom heim í gærkvöldi, gisti heima, fór til vinnu snemma í morgun og kom aftur við áðan á leið í körfubolta. 

Horfði á þátt nr. 2 af Kalla café og hló helmingi oftar en síðast, nefnilega tvisvar.  Ef svona heldur áfram verð ég í hláturkrampa á 6-7 þætti. 
Formúlan er svona: Fjöldi hlátra = 2 í veldinu x-1 þar sem x er númer þáttar.
  • 1. þáttur = 1 hlátur
  • 2. þáttur = 2 hlátrar
  • 3. þáttur = 4 hlátrar
  • 4. þáttur = 8 hlátrar
  • 5. þáttur = 16 hlátrar
  • 6. þáttur = 32 hlátrar
  • 7. þáttur = 64 hlátrar        Úff, hvað verður gaman þá !!

  • This page is powered by Blogger. Isn't yours?