<$BlogRSDURL$>

október 13, 2005

Körfubolti í kvöld ! 

Ég er ekki að fara að spila körfubolta. Það hef ég aldrei getað af neinu viti, þrátt fyrir að vera með hávaxnari konum. Ég ætla hins vegar að fara og horfa á Hött spila sinn fyrsta heimaleik í Úrvalsdeild í körfubolta. Hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að gera slíkt hið sama. Það er ekki lítils virði fyrir þetta litla samfélag okkar að eiga lið í efstu deild og það er gífurleg hvatning fyrir þá sem keppa að hafa stuðning á pöllunum.

Mætum öll ! Áfram Höttur !!

október 12, 2005

Nýr sími 

Bóndinn gaf mér nýjan síma í afmælisgjöf. Hefur sennilega verið orðinn þreyttur á að heyra mig tauta ófögur orð, þegar ég gat ekki lesið skilaboðin, sá ekki númer eða hvað klukkan var - öðruvísi en að leita að gleraugunum fyrst. Sá nýi lítur svona út. Nú á ég bara eftir að læra almennilega á hann.

október 11, 2005

Alhvít jörð .... 

Það er kominn vetur, sýnist mér. Jörð er alhvít hér á Egilsstöðum og hálka á leið í vinnuna í morgun. Það snjóar enn og lítur ekki út fyrir að hlýni alveg á næstunni. En eins og ágætar konur ljóstruðu upp í kommentunum hér fyrir neðan, þá á ég afmæli í dag. Ætla að fara að dæmi ágætrar stúlku og safna hamingjuóskum. Talan er komin upp í 7 einmitt núna og klukkan ekki orðin tíu !

október 10, 2005

Heima er best .. 

Alltaf er nú jafngott að koma heim aftur. Þó það sé kalt, snjór yfir og lítið orðið eftir af laufblöðum á trjánum.
Helgin var fín, góð skemmtun í Leikhúskjallaranum, gott partý hjá Þýskalandshópnum í Mosó og Rudesheim-kaffi hjá Óla og Ragnhildi á heimleiðinni.
Vinir okkar í Hamrahlíðinni stjönuðu við okkur eins og venjulega - alltaf gott að koma þangað. Það spillti þó svefnfriðnum að stór jarðvinnutæki byrjuðu um átta-leytið á laugardagsmorgun að grafa í umdeildan íþróttahúsgrunn við MH og að í MH stóð yfir Íslandsmót í skák. Ég bætti mér upp svefnleysi þegar ég kom heim í gær, sofnaði fyrir kvöldmat og svaf nánast fram til morguns.

Núna er ég farin í sund...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?