<$BlogRSDURL$>

október 29, 2005

Veðurlýsing frá veðurstofunni. 

Rakst á þessa sérkennilega orðuðu veðurlýsingu á vef Veðurstofunnar. Óhefðbundið orðalag þó ekki sé meira sagt.

  • Kl. 18 var norðvestanátt, 8-13 m/s og snjókoma eða él um landið norðanvert, en mun hægari og léttskýjað syðra. Frostlaust úti með Austfjörðum en annars 0 til 11 stiga frost, kaldast í Þykkvabæ.

  • október 27, 2005

    Er Skúli týndur ? 

    Rannveig sendi mér þessa frétt áðan og spyr hvort ég sé að auglýsa.
    (Greinilegt að ákveðnir ríkisstarfsmenn hafa ekkert ofboðslega mikið að gera í vinnunni í dag.)
    Því er fljótsvarað:
  • Í fyrsta lagi: Nei !

  • Í öðru lagi: Ekki réttur Skúli - aldurinn og augnliturinn passa ekki !

  • Í þriðja lagi: Hver segir að ég færi að auglýsa eftir honum þó hann týndist !

  • Í fjórða lagi: Jón Baldvin Hannibalsson hefði ekki svarað þessu betur !

  • Veðrið 

    Svona lítur út á Egilsstöðum í dag. Ég var því ákaflega fegin þegar vinnufélagi minn bauðst til að fara með Fúsa litla í þjónustuskoðun á Reyðarfirði. Hann var að fara að vinna þarna í neðra og gat samræmt þetta tvennt. Mér finnst ekkert skemmtilegt að þvælast á fjallvegum á smábíl í svona veðurlagi.

    Vona að ÍR-ingar komist austur. Þeir eiga að mæta Hetti í körfubolta í kvöld og ég ætla að fara og horfa á leikinn. Enn er ekki búið að aflýsa flugi, en þetta lítur ekki sérstaklega vel út þessa stundina.

    október 26, 2005

    Ættfræðin á reiki ! 

    Í annað skipti á stuttum tíma hef ég verið spurð um "meintan" skyldleika minn við annað fólk. Um daginn var verið að spyrja mig hvort ég væri systir Petru, landsliðsþjálfara í blaki. Við erum allsendis óskyldar.
    Í dag, í heita pottinum, spurði fullorðin kona mig hvort mamma mín vær enn að vinna. Ég varð hálf hissa, því þó móðir mín sé dugnaðarkona, hefur hún aldrei unnið utan heimilis.

    "Þú ert dóttir hennar Stellu, er það ekki ?" var næsta spurning.
    "Nei, ég er ekki dóttir Stellu, en Stella er frænka mín, við erum systkinadætur."


    Mér lék auðvitað forvitni á að vita hvernig þessi misskilningur væri til kominn, en fékk lítil sem engin svör.

    Ég segi því bara enn og aftur: "Móðir mín heitir Bergljót Sigurlaug Einarsdóttir!! Og hana nú.

    október 25, 2005

    Sund er heilsubót 

    Síðan í byrjun september hef ég farið í sund í hádeginu flesta virka daga.
    Fyrstu tvær vikurnar þurfti ég virkilegan sjálfsaga til að koma mér af stað, en núna verð ég frekar pirruð ef ég sé fram að komast ekki í sund í hádeginu. Bóndinn er meira að segja farinn að koma með mér, fyrst var hann frekar tregur til en nú er þetta allt að koma. Hann er farinn að finna það sjálfur hvað þetta er gott.

    Auk þess er ég, sem venjulega er næpuhvít á hörund, næstum að segja sólbrún á þeim pörtum líkamans sem sundbolurinn hylur ekki. Það er ekki verra.

    október 23, 2005

    Í dag .. 

    .. er sunnudagur
    .. eru tveir mánuðir og einn dagur til jóla.
    .. er veðrið gott, kalt en stillt og bjart
    .. fór ég í göngutúr í skóginum
    .. er ég búin að leysa 3 Sudoku-þrautir
    .. þvoði ég lopapeysu bjarnarins
    .. á Gunnar Kristinn 11 ára afmæli - til hamingju með daginn !

    Á morgun er svo 24. október. Að ræstitækninum undanskildum, er ég eina konan sem vinn í fyrirtækinu. Er búin að segja framkvæmdastjóranum að ég verði búin að vinna fyrir laununum mínum kl. 14:08 á morgun og muni því yfirgefa vinnstaðinn á þeirri stundu. Hann svaraði mér svo sem engu, en ég tel víst að ekki verði dregið af laununum mínum né gerð nokkur athugasemd við þessa ákvörðun mína. Þeir hlýða mér alveg þokkalega, strákarnir sem ég vinn með.

    This page is powered by Blogger. Isn't yours?