<$BlogRSDURL$>

nóvember 10, 2005

Á leið í borgina 

Ég er að fara til Reykjavíkur á eftir, en eins og staðan er núna, er ekki víst að verði flogið vegna þoku. "Maður sér varla milli augna sér", eins og Frissi í Skóghlíð sagði hér um árið.
Frissi er skrifaður fyrir mörgum svona frösum. Hann á að hafa sagt einhvern tíma: "Ja, nú kann ég ekki mann þekkja ef þetta er ekki hann lausaleikstengdapabbi minn" ! Þar var kominn faðir barnsmóður Frissa.
Einhvern tíma var líka Frissi að vinna niðri á fjörðum og hringdi heim í Skóghlíð og bað konuna að senda sér rakstrarvélina. Hún fór að velta fyrir sér einhverjum stórum flutningstækjum, sem auðvitað var óþarfi. Frissi var ekki að tala um rakstrarvél, heldur rakvél.
Og sumir fyllyrða að hann hafi einhvern tíma sem oftar velt bílnum sínum og brotið aðra hliðarrúðuna. Hann hringdi þá í bílaumboðið til að panta nýja rúðu. Umboðið vildi vita hvor rúðan væri brotin. Frissi leit út um gluggann á bílinn og svaraði: "Það er Austurglugginn" !
Í dag er gefið út blað á austurlandi sem heitir Austurglugginn, en hvort eitthvert samhengi er þar á milli, veit ég ekki.

nóvember 09, 2005

"Frágáfa" 

Í Kastljósi kvöldsins var sagt oftar en einu sinni, að tiltekin stúlknahljómsveit væri "að gefa frá sér" aðra hljómplötu. Hvaða "frágáfufyrirtæki" skyldi eiga í hlut ?

Blóm gefa frá sér ilm, en hljómsveitir GEFA ÚT plötur eða diska !!

Ég velti því stundum fyrir mér - hvaða tungumál er fólk farið að tala ?
Fyrir nokkrum árum þótti drepfyndið að segja að eitthvað kæmi "eins og þjófur úr heiðskíru lofti". Nú fattar fólk ekki einu sinni brandarann.

nóvember 06, 2005

Bloggleysi 

Einkennilegt þegar koma upp svona tímabil þar sem allt mögulegt er að gerast, bæði gott og slæmt, en ekkert af því er þess eðlis að það eigi heima á bloggsíðunni. Þannig tímabil stendur yfir þessa dagana.
Undantekning er þó bráðskemmtilegt afmæli sem við hjónin fórum í í gærkvöldi, mikið sungið og dansað, fjölskyldan öll á kafi í tónlist af ýmsu tagi. Engir aðfengnir skemmtikraftar tróðu upp, en nóg var samt. Bestur fannst mér trommuleikarinn, 10 ára gutti, sem spilaði með hinum ýmsu hljóðfæraleikurum sem sáu um dansmúsíkina. Pjakkurinn trommaði allan tímann og ég heyrði aldrei feiltakt.
Í dag kom svo stór hluti Bugðulækjarfjölskyldunnar í heimsókn, ásamt ágætum hjónum frá Egilsstöðum. Bara gaman að sjá framan í þau.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?