<$BlogRSDURL$>

desember 09, 2005

Afmæli 

Ég á tvær systur sem báðar eru fæddar í desember. Sú eldri, sem er 14 og hálfum mánuði yngri en ég, á afmæli 30. desember, en sú yngri sem er rétt rúmlega tíu árum yngri en ég, á afmæli í dag.

Til hamingju með daginn, Unnur !

Aðventan það ár er mér alltaf minnisstæð, því mamma var lögð inn á sjúkrahús nokkru fyrir fæðingu hennar og kom ekki heim fyrr en tveim dögum fyrir jól. Við systkinin vorum 7 fyrir, elsti bróðir minn 14 ára og sá yngsti 5 ára. Eins og gefur að skilja var töluvert umstang fyrir jólin á svona stóru heimili og því var kona fengin til að hjálpa til á heimilinu, fullorðin kona sem kölluð var Fríða. Hún var ágæt, en hún gerði hlutina öðruvísi en mamma og okkur fannst það ekki nógu gott. Konurnar í sveitinni voru líka að létta undir, komu með smákökur og annað bakkelsi.
Það voru bara ekki réttu kökurnar. Ég man svo ekki betur en að við Steini bróðir og trúlega einhver fleiri af systkinunum höfum á eigin spýtur bakað þær smákökur sem við vildum hafa á jólunum. Þær voru kannski ekki eins fallegar eins og hjá mömmu, en við vorum samt ánægð með þær. Ég held samt að við höfum sleppt bæði hálfmánum og gyðingakökum.

desember 08, 2005

Hálka dauðans 

Það var skelfilegt að keyra í vinnuna í morgun. Það var svo hált að ég hélt stundum að ég færi bara þráðbeint útaf. Verð að láta skoða þessa nagla í dekkjunum hjá mér ef þetta verður svona áfram. Það voru a.m.k þrír stórir bílar í vegkantinum, annaðhvort að setja á keðjur eða sátu og biðu eftir einhverju. Misvel útbúnir greinilega. Rétt fyrir innan Egilsstaði mætti ég svo tæki frá Vegagerðinni sem var að rispa upp svellið og vonandi hafa þeir vit á að sandbera í kjölfarið. Annars á einhver eftir að lenda í veseni - það er ljóst.
Jólaundirbúningurinn fer hægt af stað hjá mér eins og venjulega. Er samt búin að baka döðlubrauð, en þykist reyndar vita að það verði uppétið fyrir jól, ef að vanda lætur. Gerir ekkert til - baka bara meira.

desember 04, 2005

Jólasnjórinn 

Jólasnjórinn er aðeins of snemma á ferðinni. Það hefur snjóað dálítið um helgina og svona var útsýnið úr svefnherbergisglugganum mínum um hádegisbil.



Hann stoppar trúlega ekki lengi, því spáð er hlýnandi veðri og eins víst að það verði orðið alautt eftir nokkra daga.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?