<$BlogRSDURL$>

janúar 14, 2006

30 ára skjálfti 

Fyrir þrjátíu árum var ég í sögutíma hjá Aðalsteini Sigurðssyni - í stofu á efri hæð gamla Menntaskólans á Akureyri, minnir að hún hafi verið kölluð Suur-salur. Þeir sem verið hafa í sögutíma hjá Aðalsteini, vita að honum var illa við að vera truflaður í kennslu. Reyndar fór kennslan þannig fram að hann þuldi námsefnið með tilbreytingarlausri rödd, eins og kveikt væri á segulbandi í upphafi tímans og slökkt á því í lokin. Nýir nemendur áttuðu sig fljótt á að spurningar eða tilraunir til að brydda upp á umræðum, hvort sem var um námsefnið eða annað, voru Aðalsteini ekki að skapi.
Þennan dag var kennslan hefðbundin og nemendurnir líka við sína hefðbundnu iðju: Sumir sváfu fram á borðið, sumir(eða réttara sagt - sumar - )prjónuðu, einhverjir lögðu kapal eða skrifuðu enskan stíl fyrir næsta tíma (það var mín iðja). Þá fór að heyrast hvinur mikill og síðan fór gamla húsið að hreyfast, stólar og borð að hristast um gólfin og einhverjar myndir skekktust á veggjum. Ég hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt áður og varð furðu lostin yfir viðbrögðum sumra bekkjafélaga minna sem stukku til og opnuðu dyrnar og stóðu milli stafanna eða brugðust við á annan þann hátt sem aldrei hefði hvarflað að mér. Ég var líka alin upp við að hafa fast land undir fótum og átti ekki von á þessum ósköpum.
Mig minnir að Aðalsteinn hafi tekið sér málhvíld rétt á meðan mestu lætin gengu yfir, sagði svo við Svein Geir, sem stóð í dyragættinni að nú gæti hann sest, húsið myndi ekki hrynja úr þessu og svo byrjaði hann aftur að tala á nákvæmlega sama stað og hann hafði hætt þegar lætin byrjuðu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?