<$BlogRSDURL$>

febrúar 26, 2006

Af Bakkfirðingum 

Við hjónin ókum norður á Bakkafjörð á föstudagsmorguninn, til að fylgja gömlu frænku minni síðasta spölinn. Veðrið var eins og best gerist á þessum árstíma, bjart og fallegt, en ekki var nú hlý gjólan á Langanesströndinni, fremur en venjulega.

Þarna hittist fólk af öllum landshornum, því nánast allir af þessari fjölskyldu eru fluttir burtu frá Bakkafirði. Af sem áður var þegar maður átti frændfólk í öðru hverju húsi og rúmlega það. Samt hefur fjölgað fólki, en eftir því sem ein sagði mér sem þarna hefur búið allt sitt líf, eru Pólverjar að verða stór hluti íbúa í þorpinu. Íslendingar fá ekki vinnu í fiskverkuninni, þeir eru of dýrt vinnuafl og ekki nærri eins duglegir og Pólverjarnir.

Presturinn á Skeggjastöðum, séra Brynhildur Óladóttir, sagði í upphafi ræðunnar að Laufey hefði beðið sig þess lengstra orða að halda bara stutta ræðu - enga langloku - yfir sér. Og þannig varð það, því þegar hún var búin með fyrsta blaðið, kom í ljós að seinni hluti ræðunnar var ekki á sínum stað og var því hætt í miðri ræðu. Við sem þekktum gömlu konuna gátum ekki varist þeirri hugsun að þarna hefði hún komið að með sinn sérkennilega húmor.

Brynhildur lét sig hins vegar ekki, kvaddi sér hljóðs í erfidrykkjunni og flutti síðari blaðsíðu ræðunnar þar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?