apríl 20, 2006
Af heimskum fuglum !
Ég var að stússa í eldhúsinu í morgun og sá út um gluggann út á bílastæðið, þar sem bíllinn minn, hann Fúsi, og gamli Volvo bóndans standa hlið við hlið. Þröstur nokkur gerði sig heimakominn á þakinu á Fúsa, en renndi sér ítrekað beint á hliðarrúðuna á Volvo. Þar ýmist sveigði hann frá á síðustu stundu, rakst á glerið og datt til jarðar eða náði að bjarga sér upp á þakið á Volvo. Þennan leik endurtók hann aftur og aftur, a.m.k. 15-20 sinnum. Mér fannst þetta einkennilegt háttalag og fór að skoða aðstæður. Komst ég að eftirfarandi niðurstöðu: Þrösturinn hefur séð spegilmynd af sjálfum sér í rúðunni á Volvo, talið þar kominn óboðinn keppinaut og ráðist á hann tafarlaust.
Í gær keypti bóndinn forláta gasgrill sem nú er komið út á pall, samsett og tilbúið til notkunar. Í kvöld verður það vígt við hátíðlega athöfn og á því grillaðir heimskir fuglar, þó ekki þrestir.
Sólin skín, kaffi var drukkið úti á palli í morgun og ég held að vorið sé að koma. Það passar, Hákon á Húsum sagði að það myndi kólna aftur um eða eftir sumarmál og hingað til hefur veðurspáin hans reynst alger öfugmæli.
Gleðilegt sumar og kærar þakkir fyrir veturinn !
Í gær keypti bóndinn forláta gasgrill sem nú er komið út á pall, samsett og tilbúið til notkunar. Í kvöld verður það vígt við hátíðlega athöfn og á því grillaðir heimskir fuglar, þó ekki þrestir.
Sólin skín, kaffi var drukkið úti á palli í morgun og ég held að vorið sé að koma. Það passar, Hákon á Húsum sagði að það myndi kólna aftur um eða eftir sumarmál og hingað til hefur veðurspáin hans reynst alger öfugmæli.
Gleðilegt sumar og kærar þakkir fyrir veturinn !