ágúst 02, 2006
Á leiðinni heim
Í gær vorum við hjónin á leið heim úr vinnunni, aldrei þessu vant samferða en ekki sitt á hvorum bílnum. Þegar við komum upp í götuna okkar, reyndist hún lokuð, þar sem verið var að keyra stóra gröfu niður af enn stærri vörubíl. Bóndinn þurfti að skreppa og hitta mann, þannig að ég fór bara úr bílnum og ætlaði að rölta heim. Rétt um það bil sem ég var að ganga meðfram ferlíkinu, heyrðist ískur og grafan rann til á rampanum, annað beltið hálft út af og minnstu munaði að grafan ylti. Ég sá þann kost vænstan að hlaupa inn á lóðina fyrir neðan, vildi síður þurfa að láta skafa mig upp með kíttisspaða, eins og hvert annað fatlafól. Ég hélt svo áfram heim á leið, en þá hringdi í mig ágætur útvarpsmaður, sem bað mig að koma í þátt í útvarpinu á laugardaginn. Ég var nýsloppin úr bráðri lífshættu, þannig að mér fannst þetta bara ekkert mál og sagði já. Ég fékk hins vegar verulega bakþanka í gærkvöldi, en hef samt ákveðið að standa við orð mín. Verð sum sé í spjallþætti á Rás 1 á laugardagsmorgun kl. 11-12.