<$BlogRSDURL$>

febrúar 16, 2006

Stafl 

Bragarháttur sem ekki er kannski beinlínis viðurkenndur - kallað stafl hér um slóðir. Hef reyndar heyrt á honum fleiri nöfn sem ég man ekki í augnablikinu.

Skógarvörðuinn á Hallormsstað hefur sérstakt dálæti á þessum bragarhætti og einhvern tíma orti ég fyrir hann nokkrar slíkar til að nota þegar hann var veislustjóri á þorrablóti. Þær eru örugglega allar glataðar núna. Á þorrablótinu okkar um daginn, var sagt frá einhverjum ævintýrum skógarvarðarins og björninn látinn leika hann íklæddur sundgalla með blöðkur og snorkel. Í hvert skipti sem hann birtist mælti hann fram stafl.

Hið fyrsta tengist för skógræktarmanna til Nýfundnalands, en þar voru sumir ekki vissir um hvort þeir væru á Nýja-Sjálandi eða Nýfundnalandi. Sögðu svo að þetta gæti ekki verið Nýfundnaland því það væri greinilega löngu búið að finna það

Vinir kæru, komið er nóg
Af kýti um lönd og ýtur.
Núna skundum í Nýfundnaskóg
Og fáum okkur örlítinn dreitil !


Annað
þarf þessa skýringu:

Þór Þorfinnsson skógarvörður hefur á undanförnum árum brugðist við árlegum hnífsbrögðum fjárveitingavaldsins með því að hlaupa í stað þess að aka. Það er líka svo mikið náttúruvænna. Hann lætur sig ekkert muna um að skokka á fundi í Egilsstaði, kaffi í Klaustur eða annað það sem er innan við dagleið.
Í sumar tók hann svo þá ákvörðun að reyna sig í öðrum og óþróaðri byggðarlögum og skráði sig í ófæruhlaup það sem Norðfirðingar efna til árlega og kallast Barðsneshlaup. Í því eru hlaupnir á þriðja tug kílómetra frá Barðsnesi um Viðfjörð og Hellisfjörð til Norðfjarðar. Í Hellisfirði háttar svo til að árósinn í fjarðarbotni er hyldjúpur en þokkalegt vað skömmu ofar. Okkar maður var ekki kunnugur staðháttum og fór því stystu leið eftir sjávarkambinum og beint út í ósinn. Þegar vatnaði undir hökuna, hvarflaði að honum sú hugsun að hann gæti drukknað ef hann héldi áfram. Sneri hann því aftur til sama lands, hljóp spölkorn upp með ánni og lagði aftur í ána. Aftur náði vatnið honum í höku, en í þetta skiptið greip hann sundtökin og svamlaði yfir og tók síðan til fótanna áleiðis til Norðfjarðar, rennblautur og kaldur. Vatnsbrúsarnir sem hann hafði borið í beltisstað flutu niður eftir ánni og sáust ekki meir. Það sem eftir var leiðarinnar varð hann því að sjúga úr fötum sínum til að slökkva þorstann.
Hann sá líka fram á að hann þyrfti mun stífari sundæfingar ef hann ætti að geta sparað kostnað við utanlandsferðir með þessum hætti.

Þess má svo geta að seinna um daginn þurfti að senda hraðbát björgunarsveitarinnar í Hellisfjörð eftir sumardvalargesti sem var í andnauð eftir óstjórnlegan þriggja tíma hlátur og að á næsta ári verður skipulögð keppni bæði í Barðsneshlaupi og Hellisfjarðarsundi.


Í Barðsneshlaupið brá ég mér,
Brattur um hlíðar spretti
Átti samt ekki von á því
Að þurfa að synda yfir Hellisfjörð !


Og hið þriðja var síðan í lok sundnámskeiðsins sem birt var í síðustu færslu.

Iðka stífar æfingar
Undir sunddrottningum.
Hvað ætl’ún Hrefna mín segi
þegar hún fréttir af þessu.

febrúar 15, 2006

Andleysið er algjört ! 

Ég held að ég hafi klárað alla andagift í þorrablótsundirbúningnum. Man ekki eftir neinu sem mig langar að segja hér á blogginu.

Birti í staðinn eitt af atriðunum - var reyndar breytt svolítið í flutningi á þorrablótinu - þetta er upprunalega útgáfan:

Endurmenntun kennara og fullorðinsfræðsla fengu alveg nýja merkingu í haust þegar Elín Rán tók upp á þeirri nýlundu að bjóða fullorðnum upp á kennslu í skriðsundi í lauginni á Hallormsstað. Við skulum nú rétt sem snöggvast heyra hvað Elín skrifaði í dagbók sína þessa dagana:

Dagur eitt kl. 9:00: Er mjög spennt að sjá hve margir mæta á námskeiðið. Fimm hafa skráð sig fyrirfram en ég hef spurnir af einhverjum þar fyrir utan. Smá kvíði eins og eðlilegt er þegar nýtt verkefni er að hefjast.

Dagur eitt kl 21:00. Jæja, þá er fyrsti tíminn búinn. Meirihluti nemenda var úr kennaraliðinu og tíminn fór að mestu í að útskýra fyrir þeim kennsluáætlunina, námsmatið og reglur um mætingu. Tókst þó að koma þremur konum úr Fljótsdal í sundbolina og út í laugina. Gengur vonandi betur næst.

Dagur tvö kl 21:00. Tíminn byrjaði vel, þar sem kennsluáætlunin gerði ráð fyrir að nemendur færu út í laugina án aðstoðar. Hins vegar kom fljótlega í ljós að full þörf var fyrir alls kyns öryggisbúnað og hjálpartæki handa nemendunum. Öndunargrímur, sundgleraugu, veltiugga, áttavita og blöðkur verður að útvega fyrir næsta tíma

Dagur þrjú kl 21:00. Nýr nemandi, Tóta á Hallormsstað bættist í hópinn. Neyddist til að reka hana úr tímanum, þar sem hún náði næstum endanna á milli í lauginni og þurfti lítið að beita sínum löngu útlimum. Náði aldrei nema einu og hálfu taki áður en hún lenti á bakkanum. Sendi hana í lengri laug.

Dagur fjögur kl 21:00. Úff, hvernig datt mér þetta í hug. Ég þurfti að bæta við einu öryggistækinu enn í dag. Tveir af nemendunum eru svo kappsfullir að þeir hætta aldrei fyrr en hausinn rekst í bakkann. Muna að útvega hjálma fyrir næsta tíma.
Ath., Adda – efnilegur nemandi, full áköf og ekki vogandi að láta handa synda nema með öryggishjálm.
Ath., Sissa – sýnir feikilegar framfarir en þarf einkatíma til að laga stefnuna. Óþægilegt fyrir aðra nemendur hvernig hún syndir alltaf horn í horn.

Dagur fimm kl 21:00. Alltaf er það eitthvað - nú stalst ein í laugina án þess að vera með hjálm og er núna með kúlu á stærð við hænuegg á hvirflinum.

Dagur sex kl 21:00. – Blóð, sviti og tár – í orðsins fyllst merkingu. Greinilega ekki nóg að hafa höfuðhjálma. Verða að vera með höku- og tannhlíf líka. Svitnaði svakalega við að ná Öddu upp úr þegar hún rotaðist og grét úr hlátri yfir aðförum sumra hinna. Heilsugæslustöðin farin að hafa uppi spurnir um framkvæmd þessa námskeiðs. Sem betur fer ekki margir tímar eftir.

Ath.! Athuga hvort tryggingar Öddu taka líka til skemmda á sundlaugarbakkanum. Hafa samband við múrara til að lagfæra skarðið.

Dagur sjö kl 21:00. Frétti að læknir væri á leiðinni til að fylgjast með aðförunum, svo ég breytti kennsluáætluninni þannig að þessi tími yrði notaður í teygjuæfingar og slökun. Slapp fyrir horn.
Rökræður um hvort rétt hafi verið að breyta kennsluáætluninni tóku allan tímann. Niðurstaða náðist ekki. Framhald næst

Dagur níu kl 21:00. Loks var kennsluáætlunin samþykkt, en restin af tímanum fór í umræður um námsmat.
Tók svo þá ákvörðun að fresta prófunum um viku, þá verður búið að hleypa vatninu úr lauginni og öruggt að enginn drukknar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?