<$BlogRSDURL$>

mars 04, 2006

Á leið í borgina 

Við erum að ferðbúast - flug til borgarinnar eftir hádegið. Tilefnið augljóst.
Og er hún ekki sæt:


mars 03, 2006

Nýtt hlutverk ! 

Í morgun eignuðust frumburðurinn minn og hans kærasta dóttur og gerðu mig þar með að ömmu og bónda minn að afa. Krílið var aðeins 11 og hálf mörk og 47 sentimetrar en ef eitthvað af genum föðurins hefur skilað sér, á það eftir að breytast.

mars 01, 2006

Af saltkjöti og baunum.... 

Í gær eftir vinnu snaraðist ég í Kaupfélagið, (sem heitir víst Samkaup, en allir kalla samt kaupfélagið), í þeim erindagjörðum að kaupa saltkjöt í kvöldmatinn. Stúlkan sem afgreiddi mig við kjötborðið er alin upp í sveit og heima hjá henni er sauðfjárrækt stunduð af kappi. Samt vissi hún ekki hvernig bita ég átti við þegar ég bað um bringukoll.
Ég leitaði svo í öllum hillum að gulum hálfbaunum, endaði á að spyrja stúlkuna í kjötborðinu og hún benti mér á staðinn. En þar voru engar baunir og viðbrögð hennar við umkvörtun minni voru þau að segja mér að Bjössi frændi sinn hefði verið að spyrja að þessu sama og ég og líklega fengið síðasta pakkann. Mér var skapi næst að fara bara heim til Bjössa og borða frá honum baunirnar. Lét samt gott heita, enda minnti mig að ég ætti smávegis af baunum heima. Það reyndist rétt og því voru saltkjöt og baunir borðað af bestu lyst heima hjá mér í gærkvöldi.

febrúar 27, 2006

Limra eða tvær 

Ég orti limru um daginn. Tilefnið var að maður sem ég þekki, sagði farir sínar ekki sléttar, þar sem hann hafði villst inn í kvennaklefann í sundlauginni um morguninn. Þegar farið var að ræða málið, kom í ljós að þetta var ekki í fyrsta skipti og einu sinni hefði honum meira segja tekist að komast alla leið út í laug án þess að taka eftir því að hann hafði afklætt sig og farið í sturtu í kvennaklefanum.
Ég sendi honum þessa í tölvupósti:

Morgunsundið mennina kætir
minnkar ummál og geðið bætir.
En konum finnst verra
og kalla þann perra
sem í kvennaklefann ítrekað mætir.


Svarið kom um hæl:

Morgunsundið konurnar kætir
Þá kjólarnir passa - og geðið bætir
En best þeim finnst þó
Þegar karlarnir hæ! hó!
Kíkja á þær - feitir og sætir


Svo kom þetta:

Smá ritvilla - leiðréttist hér með
Það er enginn feitur sem stundar sund


Morgunsundið konurnar kætir
Þá kjólarnir passa - og geðið bætir
En best þeim finnst þó
Þegar karlarnir hæ! hó!
Kíkja á þær - heitir og sætir

Snilld ! 

Þetta fann ég á síðu sveitarfélagsins Fljótdalshéraðs:
---------------------------------------------------------------
Prinsessu og ofurhetjusaga
Einu sinni var hákarlinn að hjálpa Súpermann að bjarga prinsessunni með því að bíta í vondu karlana. Þegar Súpermann var búinn að bjarga prinsessunni og fara með hana uppá þak, þá flaug hann með prinsessunna til Reykjavíkur þar sem hún átti heima í kastala. Þegar hún var komin heim gekk hún um allan kastalann að herberginu sínu.
Þegar Súpermann var búin að fara með prinsessunna heim, flaug hann heim til sín að sofa.
Krókódíllin var allan daginn í vatninu og uppi á himninum. Stundum fór hann á land til að borða alla vondu mennina og gat það stundum.
Spidermann bjargaði kónginum með aðstoð Batmanns og fóru þeir með hann heim til prinsessunnar.
Krókódíllinn var með Batmann og Súperman og flaug upp í himininn og beit alla vondu karlanna.
Galdrakarl og galdranorn flugu framhjá kastalanum, snertu hurðina og breyttu kónginum í ofurhetju og prinsessunni í ofurstelpu.
Krókódíllinn kunni líka að galdra og gat galdrað allt í heiminum.
Barbie og Bratz koma á harða stökki á hestunum sínum, þær ætla að heimsækja vinkonu sína prinsessunna í kastalanum sem var orðin ofurstelpa. Þær ætluðu að gefa henni kjól með límmiðum að gjöf.

Leikritið endar á að allir leikararnir stilla sér upp og syngja saman “Þorraþræl”.


---------------------------------------------------------------

Svo eru menn að tala um frumleika já Yoko Ono !!!

febrúar 26, 2006

Af Bakkfirðingum 

Við hjónin ókum norður á Bakkafjörð á föstudagsmorguninn, til að fylgja gömlu frænku minni síðasta spölinn. Veðrið var eins og best gerist á þessum árstíma, bjart og fallegt, en ekki var nú hlý gjólan á Langanesströndinni, fremur en venjulega.

Þarna hittist fólk af öllum landshornum, því nánast allir af þessari fjölskyldu eru fluttir burtu frá Bakkafirði. Af sem áður var þegar maður átti frændfólk í öðru hverju húsi og rúmlega það. Samt hefur fjölgað fólki, en eftir því sem ein sagði mér sem þarna hefur búið allt sitt líf, eru Pólverjar að verða stór hluti íbúa í þorpinu. Íslendingar fá ekki vinnu í fiskverkuninni, þeir eru of dýrt vinnuafl og ekki nærri eins duglegir og Pólverjarnir.

Presturinn á Skeggjastöðum, séra Brynhildur Óladóttir, sagði í upphafi ræðunnar að Laufey hefði beðið sig þess lengstra orða að halda bara stutta ræðu - enga langloku - yfir sér. Og þannig varð það, því þegar hún var búin með fyrsta blaðið, kom í ljós að seinni hluti ræðunnar var ekki á sínum stað og var því hætt í miðri ræðu. Við sem þekktum gömlu konuna gátum ekki varist þeirri hugsun að þarna hefði hún komið að með sinn sérkennilega húmor.

Brynhildur lét sig hins vegar ekki, kvaddi sér hljóðs í erfidrykkjunni og flutti síðari blaðsíðu ræðunnar þar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?