<$BlogRSDURL$>

apríl 15, 2006

Langur föstudagur 

Í gærmorgun fór ég í stuttan göngutúr með bóndanum - átti að vera bara hálftíma rölt, en lengdist dálítið. Við löbbuðum inn í Atlavík og þar sem óvenju lítið var í Fljótinu, fórum við fjöruna til baka, gengum undir ytri Atlavíkurklettinn, en það er ekki fært þurrum fótum nema við svona aðstæður.

Síðdegis komu svo góðir gestir - fyrst bróðir bóndans með konu sinni og dóttur, síðan fumburðurinn og hans litla fjölskylda.

Við snæddum kalkún sem lagður var í pækil skv. uppskrift frá Nönnu og smakkaðist bara vel.

Heiður Ösp stækkar og dafnar, farin að brosa breitt og skoða umhverfið. Hún var t.d. alveg heilluð af röndunum á skyrtu afa síns, skoðaði þær mjög vandlega.
Þar sem ég horfði á hana grandskoða rendurnar, kom mér í hug að þegar pabbi hennar var rétt rúmlega tveggja ára og var einhverju sinni part úr degi í pössun hjá Sigrúnu Hrafns, kom hann til baka kotroskinn og sagði (örlítið smámæltur, en annars allvel talandi): "Skyrtan hans pabba er smáröndótt."
Þetta hafði Sigrún verið að dunda sér við að kenna honum meðan hann var hjá henni.

Gleðilega páska !

apríl 10, 2006

Svefnpurka 


Ungfrú Heiður Ösp kom í fimmtugsafmæli afa síns á laugardaginn og svaf allan tímann, þrátt fyrir allháværar umræður, hlátrasköll og almennan hávaða allt í kring.
Góður eiginleiki að geta sofið í hávaða.

Aldur 

Mjallhvít, systir bóndans, sagði öllum sem heyra vildu að bróðir hennar, bóndi minn, væri í Hveragerði á fimmtugsafmælinu. Nánar tiltekið á Heilsuhælinu að reyna að bjarga því sem bjargað yrði ! Hann var að vísu í Hveragerði, en allt hitt var lygi. Nú hefur bróðir hennar ellefu mánuði og eina viku til að hugsa upp nógu andstyggileg ummæli um systur sína, þegar hún nær þessum áfanga. Þau eru nefnilega 23 daga á sama árinu.
Annars var bara gestkvæmt um helgina, fjölskyldumeðlimir, vinir og nágrannar komu og fengu sér kaffi - allt frekar rólegt og afslappað, eins og til stóð. Bóndinn fékk margar og góðar gjafir, ekki mun skorta koníak eða viskí næstu mánuði og ekki veitti af stærri fataskáp ef svona heldur áfram. Mest undrandi varð hann þó yfir gjöfinni sem synir hans tilkynntu honum um, þ.e. jeppa- og snjósleðaferð á Vatnajökul, fyrir tvo, svo ég verð sjálfsagt dregin með á jökul einhvern tíma í sumar.
Annars stefnir í rólegt páskafrí, Björninn og Eyjastúlkan verða hjá okkur um páskana, en að öðru leyti lítið planlagt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?