<$BlogRSDURL$>

maí 05, 2006

Fleiri en ég... 

taka eftir hve mikið sést af rjúpu á Héraði !

Og nú er verið að bæta síðu við Héraðslistavefinn - spurningar og svör frá kjósendum !

Rjúpnastofninn er á uppleið 


Datt þetta í hug núna á leið í vinnuna:

Hvítir og keikir
tylla sér á hæstu hóla,
kletta, trjátoppa.

Felulitir hvað ?

Nú er um að gera,
að láta á sér bera,
sýna hinum
mátt sinn og megin.

Karlremban skín
af hverri fjöður
og allt tal
um hrun í stofninum
fellur um sjálft sig.

maí 04, 2006

Ókei, ég skal þá blogga.... 

Nú er Rannveig farin að skamma mig og af að ég er að fara í mat til hennar á laugardagskvöldið, verð ég að þegja, hlýða og blogga.

Já, matarboðið tókst vel. Það fækkaði reyndar dálítið - fór niður fyrir 20 - en svona er þetta alltaf, forföll af ýmsum ástæðum.
Við byrjuðum reyndar á góðri skógargöngu og komum svo heim og borðuðum dýrindis lambakjöt, dreyptum á rauðvíni og örfáum dropum af öðrum og sterkari eðalvínum. Ég komst með í skógargönguna þar sem góður vinur minn, hann Bjarni Þór, tók að sér matseldina. Æðislegt að eiga svona vini - takk Bjarni minn, enn og aftur !
Baunin var að velta fyrir sér hvort við byggjum á veitingahúsi. Svo er ekki, en sæmilega stór stofa, stólar og borð fengin að láni hjá góðum grönnum, þá er allt hægt.

Á sunnudaginn settist ég svo við að sauma gardínur fyrir son minn og tengdadóttur. Litla sponsið farið að vakna um miðja nótt og vera skemmtileg ! Reynandi að sauma gardínur úr þykku, dökku efni til að telja henni trú um að það sé ennþá nótt. Þetta var létt verk og við skutumst svo á Eskifjörð, frumburðurinn þræddi hjólin í gardínurnar og hengdi þær upp. Ég fékk hins vegar mun skemmtilegra verk, að róa krílið niður og svæfa. Það var auðvitað létt verk, þetta er fyrirmyndarbarn.

Vikan er svo búin að einkennast af löngum vinnudögum, fundahöldum og dálitlu stressi. Sleppi samt ekki hádegissundferðinni, þó hún sé stundum óþarflega stutt. Náði meira að segja nýju persónulegu meti á 500 metrunum í gær.

Í dag komu svo góðir gestir úr höfuðborginni, sem áður bjuggu hér neðar í götunni. Þau ætla að dvelja hjá okkur fram á sunnudag. Þriðji meðlimur þeirrar fjölskyldu kemur svo annað kvöld. Við sjáum fram á gleðilega helgi í skóginum !
Það á að rigna minna á morgun og svo að vera sólskin og blíða um helgina og langt fram í næstu viku !
Er ekki lífið bara ljúft ?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?