<$BlogRSDURL$>

desember 24, 2006

Aðfangadagur jóla 

Það hefur einhvern veginn ekki gefist tími til að skrifa inn á þessa síðu undanfarið.
Síðan ég kom heim úr Hafnarfirðinum fyrir rúmri viku, er búið að vera margt að gerast, bæði í vinnu, jólaundirbúningi og öðru stússi. Björninnn minn er heima, en Frumburðurinn og hans litla fjölskylda koma ekki austur um jólin. Björninn ætlar svo til Eyja milli hátíðanna og þá ætlum við gömlu hjónin að bregða undir okkur betri fætinum og aka með honum suður. Meiningin er að dvelja í íbúð Bjarnarins fram á nýja árið, vera afi og amma, heimsækja vini og ættingja, kannski fara í leikhús eða á tónleika og njóta þess að vera sveitamenn í borginni.
En nú er kominn aðfangadagur, ekkert eftir nema elda matinn, fara í sturtu og klæða sig í betri fötin. Það er hlýtt úti, 10 stiga hita, þurrt og eiginlega ekki vitund jólalegt.
Ég rölti áðan til gamallar konu sem býr ein hérna niðri í götunni, færði henni smáræði og fékk kaffisopa, rjómateru og spesíur. Og ég þurfti ekki nema rétt að fara í flíspeysu utan yfir mig á leiðinni.
Innan stundar koma svo nágrannar okkar, rúmlega 70 ára tvíburabræður, sem alltaf hafa búið saman. Þeir koma alltaf á aðfangadag, fá sér kaffibolla, staup af koníaki eða púrtvíni og spjalla smástund og fara svo heim að borða sitt hangiket.
Svona er aðfangadagurinn í skóginum, við bönkum upp á hvert hjá öðru, þiggjum eða gefum kaffi, skiptumst á kortum, smágjöfum eða bara góðum óskum.

Á sama hátt vil ég óska ykkur öllum, sem hér lítið inn af og til, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?