<$BlogRSDURL$>

júní 04, 2007

Ferð á Vestfirði 

Vestfirðirnir skörtuðu sínu fegursta þann tíma sem við dvöldum þar. Sól og blíða allan tímann. Þeir sögðu líka vestfirðingarnir að á sumrin væri alltaf sól og logn, nema hvað tíunda hvern dag rigndi milli 1 og 4 á nóttunni.
Við fundum reyndar út að stundum fer lognið dálítið hratt hjá þeim.

Við lentum sem sé á Ísafjarðarflugvelli á fimmtudagskvöldi. Lítið gert annað en að borða og kíkja smá á Langa Manga, þar sem reykingamennirnir sátu og nýttu síðasta sénsinn. Föstudeginum eyddi ég í bæjarráp fyrripartinn og vinnu seinni partinn. Um kvöldið heimsóttum við vini okkar til margra ára, sem búa þarna vesturfrá. Þau buðu okkur í bíltúr á Suðureyri og Flateyri. Frábært veður og fallegt að sjá firðina spegilslétta í kvöldsólinni.
Á laugardaginn fórum við þrjár saman í sund á Suðureyri, síðan fór allur hópurinn í skoðunarferð inn í Tungudal, Seljalandsdal, Bolungavík og Ósvör. Loks var farið í Neðstakaupstað og þar biðu okkar alls kyns kræsingar.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður og ball á eftir. Það var búið klukkan eitt um nóttina. Þá fengum við nokkur þá brjáluðu hugmynd að fara á sjómannadagsball í Bolungavík, sem við og gerðum.
Heimferðin í gær tók nokkrum breytingum frá áætlun. Ekki var hægt að lenda á Ísafirði og því vorum við keyrð til Þingeyrar og tafðist því brottför okkar frá Vestfjörðum um góðan klukkutíma. Einnig var nokkur frestun á fluginu austur, þannig að við vorum ekki komin heim fyrr en síðdegis í gær. En sem sagt, ljómandi skemmtileg ferð á Vestfirðina.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?