júní 06, 2007
Þrennt í einu
Það er stundum sagt að óhöpp komi oft þrjú saman. Það var alla vega það sem gerðist hjá mér í dag eftir að ég kom heim úr vinnunni. Við bakdyrnar hjá mér var heilmikill vatnselgur, sem reyndist koma undan einni hellunni í stéttinni. Sennilega bilaður stoppkrani þarna niðri og næstu kvöld fara í að grafa, finna lekann og gera við. Þar sem veðrið var gott, ákvað ég að grilla kjúklingabringur sem ég átti í ísskápnum, eitt af því fáa sem fékkst í kaupfélaginu í gær. Þegar ég opnaði pakkann, var lyktin viðbjóðsleg, þær voru dragúldnar - sennilega afleiðing af vatnsleysi og skorti á kælingu í versluninni í gær. Nema hvað, þær fóru beint út í tunnu. Ég var auðvitað búin að kveikja á grillinu þegar þetta var, kartöflurnar komnar út og allt tilbúið fyrir kjötið. Ég tafðist dálítið yfir ónýta kjötinu og við að horfa á bóndann moka stóra holu við útidyrnar, þannig að þegar ég kom út og ætlaði að fara að slökkva á grillinu, þar sem ekkert var kjötið til að grilla, skíðlogaði í öllu þar úti. Það þarf því ekki bara að moka holu og finna leka, heldur er töluvert verk framundan við að þrífa sót af grillinu.
Vona að það séu ekki 3x3 í dæminu.
Vona að það séu ekki 3x3 í dæminu.