<$BlogRSDURL$>

maí 17, 2007

Sitt lítið af hverju..... 

Nýja, ódýra fartölvan sem ég keypti um daginn og reyndist vera með Vista-stýrikerfi var straujuð í gær og á hana sett XP pro. Skil ekki tilganginn með því að hafa stýrikerfið svo flókið og þungt að allt vinnsluminni vélarinnar sé bundið í að sinna hennar þörfum en ekki notandans. Ég var sem sagt að dunda við þetta með öðru í gærkvöldi. Ég sleppti líka að setja á hana allan þann haug af dóti sem IBM/Lenovo-vélarnar eru komnar með. Finnst best að sjá um þetta sjálf. Er bara komin með þokkalega spræka fartölvu fyrir vikið.

Björninn minn kom heim undir miðnættið. Hefur ekki komið austur í meira en hálft ár. Fékk svona "týnda sonar"-tilfelli í Bónus. Keypti bæði lambakjöt til að grilla í kvöld og hangiframpart, sem soðinn var í gærkvöldi.

Samfylkingarrósirnar sem bóndinn kom með heim viku fyrir kosningar voru farnar að drúpa höfði og visna þegar ég kom heim úr vinnunni. Ætli það sé vísbending um það sem gerist ef DS verður niðurstaðan í stjórnarmyndun. S fölnar og visnar eins og B-, en D fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.

Best að reyna að klára peysuna sem ég er að prjóna á litla grjónið, hana sonardóttur mína og svo er á stefnuskránni að fara í skógargöngu síðdegis.

maí 15, 2007

Ég lifi.... 

Nei, ég er hvorki dauð né alltaf í boltanum. Bara búið að vera töluvert að gera og ég haldin bloggleti. Nenni ekki að skrifa um pólitík, veðrið hefur ekki verið frásagnarhæft, því ein af ástæðunum fyrir því að margir halda að það sé alltaf gott veður fyrir austan, er sú að við höfum vit á að þegja yfir vondu veðri en láta alla vita af góða veðrinu.
Ég var í kjörstjórn og ríkissjónvarpið sá meira að segja ástæðu til að sýna hvað ég var virðuleg í embættinu (í fréttunum í gær).
Ég fór á ráðstefnu í Reykjavík á föstudaginn, flutti þar stuttan fyrirlestur og fræddist mikið af fyrirlestrum annarra.
Ég varð líka svo fræg að berja Risessuna augum, þar sem hún sprangaði um götur borgarinnar. Skemmtilegt framtak.
Strákarnir mínir kláruðu prófin sín með sóma og geta borið höfuðið hátt - ég er alveg rígmontin af þeim. Þeir eru svo báðir komnir á fullt í vinnu, frumburðurinn í Hafnarfirði en Björninn minn norður í Skagafirði.

Ætla að gera lokatilraun til að halda blogginu gangandi. Ef ég sofna verður það sennilega svefninn langi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?